Hönnunarstaðall Háskóla Íslands

Hugmyndin með hönnunarstaðli Háskóla Íslands er sú að háskólinn fái eina stílhreina ásýnd í kynningarefni sínu sem hefur um leið samhæfð, sterk og vel undirbyggð skilaboð. Mjög mikilvægt er að allar einingar Háskóla Íslands fylgi hönnunarstaðlinum enda hefur staðallinn verið samþykktur af rektor Háskóla Íslands og forsetum allra fræðasviða. Til að tryggja að einfalt sé að fylgja staðlinum hefur sniðskjölum fyrir alla prentgripi og alla einstaka liði staðalsins verið komið fyrir á vefsvæði háskólans. Ný vefútgáfa hönnunarstaðalsins er gagnagrunnstengd og er því mjög einfalt að finna þau sniðskjöl sem leitað er eftir.

Lógó/Auðkenni/Merki Háskóla Íslands

Merki Háskóla Íslands eru í grunninn til tvö, annars vegar eiginlegt innsiglismerki og hins vegar auðkenni (lógó). Auðkennið hefur síðan afbrigði fyrir öll svið Háskóla Íslands og allar deildir þar sem mið er tekið af litum fræðasviðanna. Auðkennið má einnig nota sem vatnsmerki í prentgripum og auglýsingum og er þá gert ráð fyrir að reglum um notkun þess sé fylgt.

Eiginlegt innsiglismerki Háskóla Íslands (stimplað, þrykkt eða prentað á bréfsefni) er notað við formlega skjalagerð til staðfestingar á umboði þess sem skjalið ritar í nafni háskólans eða stjórnunareiningar innan hans. Sérstakar reglur gilda um notkun innsiglismerkisins.

Auðkenni (lógó) Háskóla Íslands er notað við almenna kynningu á þeirri starfsemi sem fram fer á vegum skólans, fræðasviða og deilda innan þeirra. Þetta á við um rannsóknir, kennslu og fræðslu og alla þjónustu. Auðkennið má aldrei nota eitt og sér, því þarf ávallt að fylgja nafn Háskóla Íslands hvort sem er á íslensku eða ensku.

Auðkennið mega nota:

  • Allir fastráðnir starfsmenn Háskóla Íslands þegar þeir koma fram eða senda frá sér skjöl eða gögn á vegum þeirrar stjórnunareiningar sem þeir starfa í.
  • Þeir sem hlotið hafa akademíska nafnbót skv. reglum þar að lútandi.
  • Öll fræðasvið.
  • Allar deildir.
  • Allar stofnanir sem heyra undir fræðasvið og deildir.
  • Allar stofnanir sem heyra undir háskólaráð.
  • Sameiginleg stjórnsýsla Háskóla Íslands.

Einnig er heimilt að nota auðkennið, ásamt auðkennum annarra aðila, ef fyrir hendi er samstarfssamningur um tiltekin verkefni, sbr. t.d.samning háskólans og Landspítala – háskólasjúkrahúss. Einnig ef um er að ræða sameiginleg verkefni, svo sem ráðstefnur og málþing. Þjónustusamningar og samningar um styrki við einstök verkefni veita ekki heimild til þess að nota auðkenni háskólans nema sérstaklega sé um það samið.

Fjöldi stofnana er starfræktur innan vébanda Háskóla Íslands. Mikilvægt er að þessar stofnanir kenni sig við háskólann í því prentefni sem frá þeim fer. Þar sem tengingin kemur ekki beint fram í heiti stofnunarinnar og í þeim tilvikum þar sem stofnanirnar notast við sitt eigið merki skal skilgreina tenginguna við háskólann á viðeigandi hátt.

Samræmis skal gæta í notkun merkis háskólans og æskilegt er að þær stofnanir sem nota merki skólans virði leturgerð hans. Ætíð skal nota Frutiger-leturgerð með merkinu.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is